IS EN

Umhverfi

15.02.2017

Fullyrða má að þeirra bíði veisla sem Kerlingarfjöll sækja heim og kunna að meta fallega og fjölbreytta náttúru. Litbrigði, litir og landslag, með fjöllum, jöklum, dölum, tindum, giljum og bullandi hverasvæði bíður og ekkert eftir en að mæta á staðinn og bera sig eftir björginni. 

Í Kerlingarfjöllum finna allir gönguleiðir við sitt hæfi. Sumar leiðir eru merktar en aðrar eru ómerktar. Þú getur farið um og ekki rekist á annað fólk tímunum saman. Í Kerlingarfjöllum rennur maðurinn og náttúran saman í eitt. 

Smellið á myndina hér til hliðar til að fara í myndagallerí.

MATSÁÆTLUN - Kynning á tillögu

05.01.2017
Hafið er mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar endurbyggingar og frekari uppbyggingar hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum í Hrunamannahreppi. 
 
Fyrirhuguð framkvæmd fellur undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum m.s.br, samkvæmt 6. gr. og tölulið 12.05 í 1. viðauka. Framkvæmdin er háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar dags. 1. júlí 2015 og úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 30. júní 2016. 
 
Fannborg ehf. er framkvæmdaraðili verksins en mat á umhverfisáhrifum er unnið af Mannviti. Í tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst. Greint er frá samræmi við gildandi skipulag og fjallað um þá umhverfisþætti sem teknir verða fyrir í mati á umhverfisáhrifum. Einnig er greint frá því hvaða gögn eru fyrir hendi og verða nýtt við matið og hvaða athuganir er fyrirhugað að ráðast í sérstaklega í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt er greint frá kynningu og samráði.
 
Öllum er frjálst að senda inn ábendingar eða athugasemdir og eru þær sendar til Skipulagsstofnunar. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 20. janúar 2017 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.

 

Tillögu að matsáætlun má nálgast hér.

Þolmarkarannsókn má nálgast hér.

 

 

Umhverfismál

06.09.2015

Fannborg efh, hefur ávallt lagt áherslu á að starfsemi félagist geti talist ábyrg gagnvart umhverfi, náttúru og samfélagi þar sem hlúð er sem vera má að landi, náttúru og umhverfi. Við leggjum okkur fram um að ganga vel um og hugsa vel um landið.

Á undanförnum árum hefur Fannborg varið vinnu og fjármunum í ýmis umhverfistengd verkefni og má þar meðal annars nefna:

  • Fjarlægðar hafa verið á Hrunamannaafrétti yfir 10km af varnargirðingum sem þar hafa legið án umhirðu í áratugi.
  • Fjarlægt rusl meðfram Kjalvegi, bæði með því að taka ávallt rusl sem til fellur og ein með því að senda árlega vinnuhópa sem hreinsa veginn frá Seyðisá í norðri og að Gullfossi í suðri.
  • Leiðbeina ökumönnum varðandi utanvegaakstur og lagfært ummerki eftir þá sem hafa ekið utan vegar. Í þessu samhengi hafa forráðamenn Fannborgar beitt sér fyrir því að Kjalvegur verði lagfærður, veglínan einfölduð og vegurinn hækkaður yfir umhverfið. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel þessar framkvæmdir hafa hlíft umhverfi vegarins vegna t.d. utanvegaaksturs - bæði sunnan við Bláfellsháls og norðan Hvítár. Utanvegaakstur er ólíðandi og er það mat Fannborgar að festun þessara lagfæringa og andstaða gegn þeim sé jafnframt andstaða við aðgerðir til að vinna gegn utanvegaakstri á svæðinu.
  • Á Kerlingarfjallasvæðinu hefur Fannborg látið stika gönguleiðir og merkja. Lagt tröppur í viðkvæmt landslagið til að minnka átroðning og beina ferðamönnum á afmarkaðar slóðir. Ennfremur eru stígar lagfærðir þar sem úrrennslis er farið að gæta.
  • Hvað starfsemina í Ásgarði varðar þá hefur Fannborg lagt áherslu á að reksturinn fylgi kröfum sem gerðar eru af lögum og reglugerðum, séróskum eftirlitsaðila eða umhverfisstaðla eins og til dæmis norræna Svansmerkinu. Taka þessar áherslur meðal annars til atriða eins og vatnsskömmtunar í sturtum, notkun sápuefna og förgunar á sorpi. 

 

Náttúra hálendisins er viðkvæm og umgengni um hana skal vera með varúð og virðingu - þar vill Fannborg sýna gott fordæmi.

Ef smellt er á myndina hér til hægri má sjá myndsafn sem snýr að hreinsunarstörfum og viðhaldsverkefnum.

Hveradalir jarðhiti

30.10.2013

Hveradalir eru eitt af þremur skilgreindum háhitavæðum í Kerlingarfjöllum, en þar gefur að líta gufu- og leirhveri og er útstreymi þeirra blandað brennisteini. Við hverina myndast hveraleir og allt berg er sundursoðið. Þar sem jökultungur ganga niður í dali hafa hverirnir sumstaðar brætt frá sér ísinn og myndað tilkomumiklar hvelfingar, íshella eða íshamra. Einnig vex í kringum hverina mjög sérstæður gróður. Marglitur hveraleirinn, gufumökkurinn, líparítfjöllin, jökultungurnar og gróðurvinjar inn á milli búa þarna til fjölbreytni og litaauðgi sem gerir svæðið engu líkt.

Fyrir ljósmyndarann eru Hveradalir ævintýraland.

Smellið á myndina hér til hliðar til að fara í myndagallerí..

Hringbrautin - leiðarlýsing og myndir

29.10.2013

Fjölmargir hafa í sumar tekist á við nýju gönguleiðina, Hringbrautina, sem liggur í kringum Kerlingarfjöllin. Þessi nýja gönguleið er 3 dagleiðir og er um 47 km alls. Á leiðinni er gist í skálanum í Klakki og síðan í skálanum í Kisubotnum.

Leiðin liggur um sléttur, um fjallaskörð, jökulhettur, jarðhitasvæði og fjallstinda. Upphafsstaður er við skálana í Kerlingarfjöllum og gönguleiðin endar á upphafspunkti.

Útbúin hefur verið leiðarlýsing fyrir leiðina og allar nánari upplýsingar og myndir er að finna á tenglinum með því að smella hér eða fara inn á tengilinn fyrir gönguleiðir.

 

Related link:
http://www.kerlingarfjoll.is/view_route_en.php?id=24
 

Landvernd - stefna

27.10.2013

Það er nauðsynlegt að hálendisvegir eins og Kjalvegur séu boðlegir þeim sem vilja njóta hálendis Íslands. Hálendisvegir þurfa að ná upp úr landslaginu og þurfa að samsvara sig landinu og "liggja vel í landi).

Í stefnu Landverndar frá 2007, bls. 24, er eftirfarandi sett fram og við erum þessu sammála: "Nauðsynlegt er að greina milli ferðamannavega og almennra vega (þjóðvega o.s.frv.) í gerð vega og staðsetningu. Ferðamannavegir eru sérstaklega ætlaðir umferð ferðamanna, sem njóta vilja landslags og náttúrufars, og eru lagðir þannig að þeir raski sem minnst landslagi því og náttúrufari, sem þeir liggja í og um, litið til öryggis umferðar og annarra þarfa.

Vegir á miðhálendi Íslands eiga fyrst og fremst að vera ferðamannavegir og þjóna þörfum þeirra sem sækja á hálendið til að njóta þess sem það hefur upp á að bjóða. Það er mikilvægt að á hálendinu verði víðáttumikil svæði þar sem ekki er að finna vegi.

Bæta þarf marga af núverandi vegum á hálendinu. Fjölmargir vegir og slóðar á hálendinu valda skaða á náttúru í því ástandi sem þeir eru í dag. Víða þarf að lagfæra vegslóða með ofaníburði og ræsum til að koma í veg fyrir hjáleiðir og forðast niðurgröft."

Dude you're screwed - survival þáttur tekinn upp í Kerlingarfjöllum

26.10.2013

Jake Zweig, fyrrverandi sérsveitarmaður, er skilinn eftir á snæviþöktum fjallstoppi í óbyggðum Íslands. Hann hefur 100 klukkutíma til að komast til baka eða hann er í slæmum málum. Þetta er plottið í nýjum þætti sem sýndur er á Discovery.

Hvar annars staðar en í Kerlingarfjöllum er hægt að finna jafn frábæra staðsetningu til myndatöku? Umhverfið er frábært og á meðan Jake Zweig brýst um í fjöllunum hefur annað starfsfólk það náðugt í aðstöðunni í Kerlingarfjöllum.

Kerlingarfjallavinir - stofnfundur

25.03.2013

 

Kerlingarfjallavinir eiga það sameiginlegt að vilja hlúa að og vernda náttúru Kerlingarfjalla og stuðla að því að sem flestir geti notið náttúru þeirra í sátt við umhverfið.

Kerlingarfjallavinir ætla sér meðal annars að bæta aðgengi fólks að svæðinu, merkja gönguleiðir, styðja við rannsóknar- og fræðslustarf og vinna að kynningu Kerlingarfjalla sem einstaks áningarstaðar fyrir íslenskt og erlent ferðafólk.

Nánari upplýsingar er að finna hér